Fjallabaksleiðin

12.2.06

Rétt eins og þögnin hafi sigrað

Nafniminn Guðmundsson flutti magnaðan pistil í Víðsjá á föstudag. Ég mælist til þess að þeir sem ekki heyrðu hann noti tækifærið til að hlýða á hann á netinu áður en hann verður fjarlægður eftir tæpar tvær vikur. Reyndar fannst mér dálítið ómaklega vegið að unglingum í honum, en það gæti líka verið á misskilningi byggt. Froðumenning er ekki unglingamenning. Hún er bara heimskuleg. Fávitamenning. Raunveruleikasjónvarpi er ekki beint að unglingum, heldur miðaldra fábjánum. Eða miðaldra sakleysingjum sem gerðir eru að fábjánum með forheimskandi fávitamenningu. Ég þekki enga unglinga sem horfa á tiltektarþætti, og mér er til efs að þeir fylgist spenntir með lýtaaðgerðaþáttunum. Ég held þessu sé aðallega beint að lífsleiðu fólki sem nennir ekki að gera neitt úr lífi sínu - úr þessu. Það er misskilningur að unglingar séu meiri fávitar en gengur og gerist um fólk.

Þegar ég hafði hlustað á pistil nafnamíns, og pistil Hauks Ingvars, hlustaði ég á viðtal við ritstjóra stúdentablaðsins, frá því daginn áður. Mig langar að lesa stúdentablaðið. En það berst ekki vestur, a.m.k. ekki svo ég verði var við það.

Svo barst Tímarit Máls og menningar í hús og bíður þess að vera lesið í þaula. Skemmtilegast fannst mér að sjá að Heimir Pálsson hafði sagt um síðasta tímarit að þó ekki hefði verið nema fyrir síðu Hauks Ingvarssonar þá hefði það verið frábært. Það átti Haukur skilið, það er alltof lítið um að honum sé hrósað í hástert. Ljóðin á síðunni voru tvö:

Formtilraunir

A. Þríhyrningar á ferhyrningi
Fjöll
á
mynd-
flöt
á
vegg.
B. Sívalningur í hring

Hann sagði: "Gímald."
Og þögnin varð löng
sívöl og mjó
eins og kústskaft
rekið inn í ruslatunnu
sem liggur á hlið.

Svo las ég líka loksins verðlaunaljóð Óskars Árna og mér er þvert um geð að viðurkenna að ég varð fyrir vonbrigðum, enda er Óskar Árni miklu merkilegri höfundur en þetta ljóð gefur til kynna. Mér fannst það voða bítlalegt, einhvernveginn of kunnuglegt. Meira eins og auglýsinga jingle en alvöru tónsmíð. Svona eins og ég væri löngu búinn að lesa það margsinnis. En voða þægilegt og fallegt, það er ekki það, og vel gert. Ljóðlistin er bara á svo miklu blússandi svíngi að það er varla forsvaranlegt að Óskar vinni með þetta. Þó hann sé annars maklega kominn að öllum mögulegum viðurkenningum og verðlaunum.

Hér er afskaplega mikill sunnudagur í mönnum. Varla ég nenni að hella upp á og koma mér að verki, koma einhverju í verk. Í gær var góður dagur. Og þó dagurinn í dag sé ekki endilega síðri virðist hann ætla að verða rólegri. Mig langar eiginlega mest að skríða aftur upp í rúm og sofa dálítið í viðbót. Enda fór ég óþarflega snemma á fætur, í ljósi þess að ég var í þrítugsafmæli í gærkvöldi. Kannski ég sitji bara hérna og stari út í loftið stutta stund, hlusti á sunnudagsmúsík og ruggi mér. Það er margt að hugsa um.

9 Comments:

  • At 5:44 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Það má lesa Stúdentablaðið hérna og það nýjasta fer vonandi að detta inn:
    http://www.student.is/web/frettir.php?page=1&id=2

    þó auðvitað sé þreytandi að lesa þetta á pdf. Annars eru venjulega stórir bunkar af þessu í fs-húsinu, gott ef ekki gömul blöð líka, þú getur örugglega sníkt eitthvað þar.

     
  • At 10:20 e.h., Blogger Hildur Lilliendahl said…

    Ég veit ekki betur en ég sé síhrósandi honum Hauki, hann hefur ekkert gott af því að aðrir geri það líka. Svo verður þú alltaf brjálaður þegar ég segi eitthvað fallegt um hann, þú öskrar alltaf eitthvað um Kate Moss.

     
  • At 11:59 e.h., Blogger Hildur Lilliendahl said…

    Já og eitt enn: "Kannski ég sitji bara hérna og stari út í loftið stutta stund, hlusti á sunnudagsmúsík og ruggi mér." Hrikalega multitaskarðu, átt þú ekki að vera karlmaður?

     
  • At 8:39 f.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Ég verð nú að vera algerlega ósammála þér í sambandi við þessa fávitamenningu. Hún sparar manni sporin. Ég þarf ekki að fara í lýtaaðgerð, enda fallegur. Ég þarf ekki að borða hollt, ekki að prófa hættuleg "stönt" og ekki að fara á deit með ríkum gellum.
    Þetta með unglinga eru líka ómerk rök hjá þér. Flestir unglingar eru nautheimskir. Þeir eru bara kraftmiklir og þú mátt ekki rugla þvi saman. Ég þekki til dæmis mikið af sjómönnum sem eru heimskir en kraftmiklir. Unglingar í dag eru samt útsjónasamir. Kynslóðir verða alltaf útsjónasamari með þróuninni, þvi það verður alltaf erfiðara að ljúga. Þau hafa farsíma og allir vinir þeirra eru með internet þar sem hægt er að sjá þá á webcam til þess að ganga úr skugga um að þeir séu ekki í hópsexi með körfuboltaliðinu af vellinum, vestmannaeyingum eða dönskum múslimum. Kb banki fylgist líka vel með þeim þvi hann verður að vita hvar þeir eru og þess vegna lánar hann þeim kort þar sem hann getur tékkað á 10minutna fresti hvar þau kaupa 500króna frelsi.

    Jú Eiríkur raunveruleikasjónvarp er skemmtilegra en allt annað og unglingar eru heimskir. Þessi ljóð hans Hauks eru ömurleg og ég er ekki neikvæður.
    Kærar kveðjur úr helvíti.

     
  • At 8:45 f.h., Anonymous Nafnlaus said…

    A. Ónothæft á nothæfu.

    Ljóðskáld
    á
    alvöru
    stól.

    B.Vitleysa í vitleysingi.

    Hann sagði. " Eilífð"
    Og bók hans varð löng
    leiðinleg og endalaus
    einsog hljóð tómum útvarpsmanni
    á ríkri útvarpsstöð
    sem heyrist útum allt.

     
  • At 8:47 f.h., Blogger Eiríkur Örn Norðdahl said…

    Ég get ekki látið mér detta í hug þú teljir þig hafa afsannað þá kenningu að froðumenningin sé forheimskandi.

     
  • At 8:47 f.h., Anonymous Nafnlaus said…

    einsog hljóð úr tómum

     
  • At 9:44 f.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Flatur bjór er forheimskandi. Froðumenningin er frískandi og mettandi. Hún er lystug og líðandi.
    Hið gamla er kannski hart undir tönn og byggir á traustum grunni.
    En common ferhyrndur kassi á grunni(t.d hús Jóns Ólafssonar tónlistarmanns,hjá vesturbæjarlauginni) eða eitthvað alvöru einsog perlan, vaxmyndasafn og ís.

    Ég er reyndar samt á þeirri skoðun að ef að raunveruleikaþættirnir fá leyfi þá ætti klám að fá leyfi líka, og þá erum við kannski komin útá ystu nöf.
    (samt kannski skárra að ganga útfyrir ystu mörk siðferðisins heldur en að lesa þessi ömurlegu ljóð þarna.

    hahahah

     
  • At 4:04 e.h., Blogger Hildur Lilliendahl said…

    Nú í dag, 18. ágúst 2009 kl. 15:06 datt þessi færsla skyndilega inn á google readerinn minn. Spes. Gaman að sjá þetta aftur.

     

Skrifa ummæli

<< Home

 
Refresh Page