Fjallabaksleiðin

7.4.08

Dagur núll

Við þurrkum yfir fortíðina. Hér er dagur núll.

11.6.07

Upprifjun

Þetta var ég að rifja upp:

"Nú held ég að flestir séu sammála því að Þröstur Helgason, ritstjóri Lesbókar Morgunblaðsins, sé langt í frá þroskaheftur maður. Þvert á móti held ég að allt sæmilega vel gefið fólk sé tilbúið til að fullyrða með mér að Þröstur sé dæmalaust snjall ritstjóri, hann sé penni sem vert er að gefa gaum, og þeir sem þekkja hann segja að hann sé bara almennt frekar fínn kall. Og því spyr ég, lostinn öllum heimsins furðum: Hvers vegna í ósköpunum eru 19 af hverjum 20 ljóðum sem birtast í Lesbók Þrastar, algert djöfuls endemis rusl?

Hvers vegna langar mig að stinga úr mér augun þegar ég les ljóðin í Lesbókinni á meðan mér þykja greinarnar oftar en ekki sérlega vandaðar, og nánast undantekningalaust áhugaverðar? Er Þröstur í samsæri með Námsgagnastofnun um að sannfæra þjóðina, frá sex ára og upp úr, um að ljóðlistin eigi heima á sorphaugum íslenskrar menningarsögu? Á maður bara að yppa öxlum og vona að Eyjólfur (Þröstur) hressist? Eða stinga höfðinu í sandinn og láta eins og það sé allt í stakasta lagi? Er það íslenskri ljóðlist fyrir bestu að maður þegi yfir þessu? Getur ekki verið, að þó Þröstur sé hinn fínasti kall, þá þurfi einhver að taka sig til og sparka duglega í rassgatið á honum? Og dugi það ekki til er alveg spurning um að berja hann til óbóta. Eru einhverjir sjálfboðaliðar."

X. kafli formála bókarinnar Af ljóðum (skrifaður af yðar óværuverðugum) - sem nýlega var til umræðu í Lesbókinni.

Ég viðurkenni reyndar fúslega að líklega hef ég gengið of langt þarna. En mér stendur heldur ekki beinlínis á sama þegar heilu stofnanirnar virðast leggja sig í líma við að eyðileggja hugmyndir fólks um ljóðlist, hrekja fólk í burtu. Ég hef afskaplega litla trú á því að Þresti finnist ljóðin í lesbókinni góð, og fyrst hann þráast við að hafa þessa reiti undir þau, þá hlýtur hann að vilja birta vond ljóð. Lesbókarljóðin eru líklega þau íslensku ljóð sem eru lesin langvíðast - þó þau endi í sorpinu við enda dags.

Þá rifjaði ég líka upp að Jón Yngvi sagði póstmódernistana - taldi þar til Eirík G., Sölva Björn, Steinar Braga og (jafnvel) Hauk Má, og ég held fáir mótmæli því að Hermann teljist þar með (hann var ekki með skáldsögu fyrir síðustu jól, og því ekki í greininni) - "endurspegla 10-15 ára gamla umræðu. [Bækurnar] eru allar í einhverjum skilningi sjálfssögur, textar sem fjalla fyrst og fremst um aðra texta og sjálfar sig, írónísk úrvinnsla úr hefð."

Ég er reyndar ekki sammála þessu. Eða - ég kannast ekki við að þetta séu hugmyndir sem hafi gengið sér til þurrðar, ég sé ekkert sérstaklega gamaldags í þessum bókum samanborið við aðrar íslenskar (eða erlendar) skáldsögur. Þetta er bara einn litur þessara bóka, einn þráður sem er langt í frá slitinn eða gisinn enn.

En mér finnst merkilegt að þetta hafi verið síðasta ásökun á undan Hermanns um að eitthvað væri "ekki nýtt". Báðum umfjöllunum, Jóns og Hermanns, fylgir grundvallarmisskilningur á hugtakinu nýtt eins og það kemur fyrir í bókmenntum og listum. Það er ekki til neitt nýtt, bara viðleitni til nýs.

Þá rifjaði ég líka upp (og ég tek fram að ekkert af þessu þarf að vera beintengd ætlunum Hermanns eða Þrastar - mér finnst þetta bara merkilegt sjálfum) að í ritdómi um ljóðabók Hermanns - sem birtist hér - uppnefndi ég hann "fyrsta spænska períóðulistamanninn" - sem aftur er auðvitað einhverslags vísun í nýtt/gamalt debattinn - sem er auðvitað afskaplega þreytt tugga.

4.4.06

Hitt kynið

Það er verið að ræða femínisma í Rafauganu. Í augntóftum Rafaugans. Svava Johansen kom víst í einhverju viðtali með þessa klisju að þó hún væri ekki femínisti þá væri hún hlynnt jafnrétti. Í kjölfarið fór af stað þessi venjulega vandlætingaralda af "heldurúnkannskiatilaverafemínistiþurvimaðraveraloinnundiröndunum?". Sem er satt best að segja ekki mikið frjórri en komment Svövu.

Er ekki þessi skessuhugmynd um lesbíska loðna tröllkonufemínistann löngu dauð? Er það í alvörunni tæk útskýring á þessu með Svövu? Eða nokkurn? Ég bara kaupi það ekki. Man einhver eftir nýlegu dæmi - frá Íslandi - um slíka framsetningu? Kannski er þessi umræða á einhverju bullandi svíngi í Reykjavík en ég hef ekki rekist á hana hér fyrir vestan síðan ég var í menntaskóla, og þá tel ég landsfjölmiðlana með. Mér finnst þetta vera bullútskýring, til að útskýra eitthvað óþægilegt í burtu.

Kannski er ég bara bitur. Fyrir um tveimur árum síðan rakst ég á eina af forgöngukonum íslenskra kvenréttinda og eftir að ég hafði lýst mig fylgjandi klámi þá bannaði hún mér að kalla mig femínista. Hún beinlínis gargaði á mig að ég mætti það ekki. Sem mér fannst fjári fúlt að kæmi frá jafn miklu átoríteti, enda beinlínis til kenningar innan "hins alþjóðlega femínisma" sem eru mjög hlynntar klámi. Ekki það ég sé reyndar ekki sekur um að hafa viljandi reynt að vinda hana upp - svo ég taki það nú fram, henni til varnar.

Eitt sinn var Nýhil boðið að lesa upp fyrir karlahóp femínistafélagsins. Ég fékk tölvupóst þess efnis frá Nýhilista sem var beðinn um að skipuleggja þetta og stökk á tækifærið enda taldi ég mig eiga fullt erindi þangað. Þegar Nýhilistinn svo hringdi og tilkynnti hverjir kæmu þá stoppaði pilturinn við nafnið mitt og sagði: "Eiríkur Norðdahl? Er hann ekki karlremba?" - og þetta var nota bene löngu áður en ofanónefnd kona bannaði mér að kalla mig femínista.

Ég stakk upp á því á kommentakerfi Rafaugans að kannski væri málið það að hugtakið femínismi væri í herkví, því væri beinlínis stjórnað af samtökum sem eiga sína eigin túlkun á því, þar sem ekki er hægt að vera hlynntur klámi án þess að tilheyra öðrum hópi. "Þú bara mátt það ekki!" Nú má reyndar vel vera, það kemur upp í hugann á mér, að ljúfari höndum væri farið um stúlku sem segðist femínisti og hlynnt klámi en dreng. En látum það vera.

Einhver sagði að til væru milljón femínismar og fólk á borð við Svövu ætti að kynna sér hlutina áður en það lætur svona út úr sér. Mér finnst þetta dálítið auðvelt. Þetta býður einfaldlega upp á endalausan orðhengilshátt og hugtakasjálfsfróun. Það er ekkert sjálfsagt að hugtak þýði það sama í almennri umræðu og það gerir innan annarrar umræðu. Það er ekki hægt að skipa orðum á bása. Orð á borð við "smáborgari" og "menningarkapítal" þýða algerlega eitt fyrir einum og annað fyrir öðrum. Og það er ekki hægt að skipa þeim fyrir. Það er ekki hægt að grípa fram í fyrir fólkinu á næsta borði til að útskýra að "smáborgari er maður sem á sín eigin atvinnutæki en hefur enga starfsmenn til að arðræna" - eða hvað þá að ganga lengra. Ég held það sé gáfulegra að reyna að gera sér í hugarlund hvers vegna fólk skilur orðin eins og það gerir, heldur en að skammast út í fáfræði þess fyrir að skilja þau eins og það gerir. Þó auðvitað sé full ástæða til að reiða sig og æsa og verða æpandi vitlaus út af fáfræði fólks, þá held ég það megi líka oft skilja hana betur með því að gefa henni vægi - að viðurkenna að þó hún sé heimskuleg þá varpi hún einhverju ljósi á heiminn.

En það er einmitt kannski málið - það sem er til "fræðilega" eða "alþjóðlega" í femínisma eykur ekki litrófið í umræðunni hér heima, ekki frekar en hugmyndir Íslendinga um ljóðlist eru þær sömu og NewYorkara eða Torontonia. Ef femínismi er einn hlutur í íslenskum (fjölmiðla)debatt, þá er hann það fyrir öllum sem ekki kynna sér málið nánar. Þá er hann það fyrir Svövunum og Ingvunum Hröfnunum sem þyrftu að vita betur. Sem þyrfti að nauðmata með upplýsingunum, ef það ætti að koma þeim til skila.

Sá sem notar hugtakið femínisti í fjölmiðlum, hvort sem hann gerir það með því að gelta um loðnar illalyktandi kellingar eða með því að gelta um hallærisleg karlablöð, býr til hugmyndir almennings um hugtakið, framleiðir hina almennu notkun hugtaksins. Ég held að þær staðalmyndir sem femínistafélagið framleiðir af "jafnréttissinnum" séu alveg jafn kolrangar og ef við ætluðum að túlka "konur" út frá því sem stendur í Bleikt og blátt.

Og jú. Vissulega hef ég heyrt því fleygt að það að vera femínisti sé ekkert eitt, af femínistum í fjölmiðlum. En ég hef einfaldlega ekki séð þess stað. Kannski hef ég ekki verið að fylgjast nægilega vel með, það má vel vera. Þá er fólki einfaldlega bent á að leiðrétta mig með dæmum sínum.

Og já. Mér er alveg sama hvað ykkur finnst. Ég er barasta víst femínisti.

12.2.06

Rétt eins og þögnin hafi sigrað

Nafniminn Guðmundsson flutti magnaðan pistil í Víðsjá á föstudag. Ég mælist til þess að þeir sem ekki heyrðu hann noti tækifærið til að hlýða á hann á netinu áður en hann verður fjarlægður eftir tæpar tvær vikur. Reyndar fannst mér dálítið ómaklega vegið að unglingum í honum, en það gæti líka verið á misskilningi byggt. Froðumenning er ekki unglingamenning. Hún er bara heimskuleg. Fávitamenning. Raunveruleikasjónvarpi er ekki beint að unglingum, heldur miðaldra fábjánum. Eða miðaldra sakleysingjum sem gerðir eru að fábjánum með forheimskandi fávitamenningu. Ég þekki enga unglinga sem horfa á tiltektarþætti, og mér er til efs að þeir fylgist spenntir með lýtaaðgerðaþáttunum. Ég held þessu sé aðallega beint að lífsleiðu fólki sem nennir ekki að gera neitt úr lífi sínu - úr þessu. Það er misskilningur að unglingar séu meiri fávitar en gengur og gerist um fólk.

Þegar ég hafði hlustað á pistil nafnamíns, og pistil Hauks Ingvars, hlustaði ég á viðtal við ritstjóra stúdentablaðsins, frá því daginn áður. Mig langar að lesa stúdentablaðið. En það berst ekki vestur, a.m.k. ekki svo ég verði var við það.

Svo barst Tímarit Máls og menningar í hús og bíður þess að vera lesið í þaula. Skemmtilegast fannst mér að sjá að Heimir Pálsson hafði sagt um síðasta tímarit að þó ekki hefði verið nema fyrir síðu Hauks Ingvarssonar þá hefði það verið frábært. Það átti Haukur skilið, það er alltof lítið um að honum sé hrósað í hástert. Ljóðin á síðunni voru tvö:

Formtilraunir

A. Þríhyrningar á ferhyrningi
Fjöll
á
mynd-
flöt
á
vegg.
B. Sívalningur í hring

Hann sagði: "Gímald."
Og þögnin varð löng
sívöl og mjó
eins og kústskaft
rekið inn í ruslatunnu
sem liggur á hlið.

Svo las ég líka loksins verðlaunaljóð Óskars Árna og mér er þvert um geð að viðurkenna að ég varð fyrir vonbrigðum, enda er Óskar Árni miklu merkilegri höfundur en þetta ljóð gefur til kynna. Mér fannst það voða bítlalegt, einhvernveginn of kunnuglegt. Meira eins og auglýsinga jingle en alvöru tónsmíð. Svona eins og ég væri löngu búinn að lesa það margsinnis. En voða þægilegt og fallegt, það er ekki það, og vel gert. Ljóðlistin er bara á svo miklu blússandi svíngi að það er varla forsvaranlegt að Óskar vinni með þetta. Þó hann sé annars maklega kominn að öllum mögulegum viðurkenningum og verðlaunum.

Hér er afskaplega mikill sunnudagur í mönnum. Varla ég nenni að hella upp á og koma mér að verki, koma einhverju í verk. Í gær var góður dagur. Og þó dagurinn í dag sé ekki endilega síðri virðist hann ætla að verða rólegri. Mig langar eiginlega mest að skríða aftur upp í rúm og sofa dálítið í viðbót. Enda fór ég óþarflega snemma á fætur, í ljósi þess að ég var í þrítugsafmæli í gærkvöldi. Kannski ég sitji bara hérna og stari út í loftið stutta stund, hlusti á sunnudagsmúsík og ruggi mér. Það er margt að hugsa um.
 
Refresh Page