Fjallabaksleiðin

4.4.06

Hitt kynið

Það er verið að ræða femínisma í Rafauganu. Í augntóftum Rafaugans. Svava Johansen kom víst í einhverju viðtali með þessa klisju að þó hún væri ekki femínisti þá væri hún hlynnt jafnrétti. Í kjölfarið fór af stað þessi venjulega vandlætingaralda af "heldurúnkannskiatilaverafemínistiþurvimaðraveraloinnundiröndunum?". Sem er satt best að segja ekki mikið frjórri en komment Svövu.

Er ekki þessi skessuhugmynd um lesbíska loðna tröllkonufemínistann löngu dauð? Er það í alvörunni tæk útskýring á þessu með Svövu? Eða nokkurn? Ég bara kaupi það ekki. Man einhver eftir nýlegu dæmi - frá Íslandi - um slíka framsetningu? Kannski er þessi umræða á einhverju bullandi svíngi í Reykjavík en ég hef ekki rekist á hana hér fyrir vestan síðan ég var í menntaskóla, og þá tel ég landsfjölmiðlana með. Mér finnst þetta vera bullútskýring, til að útskýra eitthvað óþægilegt í burtu.

Kannski er ég bara bitur. Fyrir um tveimur árum síðan rakst ég á eina af forgöngukonum íslenskra kvenréttinda og eftir að ég hafði lýst mig fylgjandi klámi þá bannaði hún mér að kalla mig femínista. Hún beinlínis gargaði á mig að ég mætti það ekki. Sem mér fannst fjári fúlt að kæmi frá jafn miklu átoríteti, enda beinlínis til kenningar innan "hins alþjóðlega femínisma" sem eru mjög hlynntar klámi. Ekki það ég sé reyndar ekki sekur um að hafa viljandi reynt að vinda hana upp - svo ég taki það nú fram, henni til varnar.

Eitt sinn var Nýhil boðið að lesa upp fyrir karlahóp femínistafélagsins. Ég fékk tölvupóst þess efnis frá Nýhilista sem var beðinn um að skipuleggja þetta og stökk á tækifærið enda taldi ég mig eiga fullt erindi þangað. Þegar Nýhilistinn svo hringdi og tilkynnti hverjir kæmu þá stoppaði pilturinn við nafnið mitt og sagði: "Eiríkur Norðdahl? Er hann ekki karlremba?" - og þetta var nota bene löngu áður en ofanónefnd kona bannaði mér að kalla mig femínista.

Ég stakk upp á því á kommentakerfi Rafaugans að kannski væri málið það að hugtakið femínismi væri í herkví, því væri beinlínis stjórnað af samtökum sem eiga sína eigin túlkun á því, þar sem ekki er hægt að vera hlynntur klámi án þess að tilheyra öðrum hópi. "Þú bara mátt það ekki!" Nú má reyndar vel vera, það kemur upp í hugann á mér, að ljúfari höndum væri farið um stúlku sem segðist femínisti og hlynnt klámi en dreng. En látum það vera.

Einhver sagði að til væru milljón femínismar og fólk á borð við Svövu ætti að kynna sér hlutina áður en það lætur svona út úr sér. Mér finnst þetta dálítið auðvelt. Þetta býður einfaldlega upp á endalausan orðhengilshátt og hugtakasjálfsfróun. Það er ekkert sjálfsagt að hugtak þýði það sama í almennri umræðu og það gerir innan annarrar umræðu. Það er ekki hægt að skipa orðum á bása. Orð á borð við "smáborgari" og "menningarkapítal" þýða algerlega eitt fyrir einum og annað fyrir öðrum. Og það er ekki hægt að skipa þeim fyrir. Það er ekki hægt að grípa fram í fyrir fólkinu á næsta borði til að útskýra að "smáborgari er maður sem á sín eigin atvinnutæki en hefur enga starfsmenn til að arðræna" - eða hvað þá að ganga lengra. Ég held það sé gáfulegra að reyna að gera sér í hugarlund hvers vegna fólk skilur orðin eins og það gerir, heldur en að skammast út í fáfræði þess fyrir að skilja þau eins og það gerir. Þó auðvitað sé full ástæða til að reiða sig og æsa og verða æpandi vitlaus út af fáfræði fólks, þá held ég það megi líka oft skilja hana betur með því að gefa henni vægi - að viðurkenna að þó hún sé heimskuleg þá varpi hún einhverju ljósi á heiminn.

En það er einmitt kannski málið - það sem er til "fræðilega" eða "alþjóðlega" í femínisma eykur ekki litrófið í umræðunni hér heima, ekki frekar en hugmyndir Íslendinga um ljóðlist eru þær sömu og NewYorkara eða Torontonia. Ef femínismi er einn hlutur í íslenskum (fjölmiðla)debatt, þá er hann það fyrir öllum sem ekki kynna sér málið nánar. Þá er hann það fyrir Svövunum og Ingvunum Hröfnunum sem þyrftu að vita betur. Sem þyrfti að nauðmata með upplýsingunum, ef það ætti að koma þeim til skila.

Sá sem notar hugtakið femínisti í fjölmiðlum, hvort sem hann gerir það með því að gelta um loðnar illalyktandi kellingar eða með því að gelta um hallærisleg karlablöð, býr til hugmyndir almennings um hugtakið, framleiðir hina almennu notkun hugtaksins. Ég held að þær staðalmyndir sem femínistafélagið framleiðir af "jafnréttissinnum" séu alveg jafn kolrangar og ef við ætluðum að túlka "konur" út frá því sem stendur í Bleikt og blátt.

Og jú. Vissulega hef ég heyrt því fleygt að það að vera femínisti sé ekkert eitt, af femínistum í fjölmiðlum. En ég hef einfaldlega ekki séð þess stað. Kannski hef ég ekki verið að fylgjast nægilega vel með, það má vel vera. Þá er fólki einfaldlega bent á að leiðrétta mig með dæmum sínum.

Og já. Mér er alveg sama hvað ykkur finnst. Ég er barasta víst femínisti.
 
Refresh Page