Nafniminn Guðmundsson flutti magnaðan pistil í Víðsjá á föstudag. Ég mælist til þess að þeir sem ekki heyrðu hann noti tækifærið til að hlýða á hann á netinu áður en hann verður fjarlægður eftir tæpar tvær vikur. Reyndar fannst mér dálítið ómaklega vegið að unglingum í honum, en það gæti líka verið á misskilningi byggt. Froðumenning er ekki unglingamenning. Hún er bara heimskuleg. Fávitamenning. Raunveruleikasjónvarpi er ekki beint að unglingum, heldur miðaldra fábjánum. Eða miðaldra sakleysingjum sem gerðir eru að fábjánum með forheimskandi fávitamenningu. Ég þekki enga unglinga sem horfa á tiltektarþætti, og mér er til efs að þeir fylgist spenntir með lýtaaðgerðaþáttunum. Ég held þessu sé aðallega beint að lífsleiðu fólki sem nennir ekki að gera neitt úr lífi sínu - úr þessu. Það er misskilningur að unglingar séu meiri fávitar en gengur og gerist um fólk. Þegar ég hafði hlustað á pistil nafnamíns, og pistil Hauks Ingvars, hlustaði ég á viðtal við ritstjóra stúdentablaðsins, frá því daginn áður. Mig langar að lesa stúdentablaðið. En það berst ekki vestur, a.m.k. ekki svo ég verði var við það. Svo barst Tímarit Máls og menningar í hús og bíður þess að vera lesið í þaula. Skemmtilegast fannst mér að sjá að Heimir Pálsson hafði sagt um síðasta tímarit að þó ekki hefði verið nema fyrir síðu Hauks Ingvarssonar þá hefði það verið frábært. Það átti Haukur skilið, það er alltof lítið um að honum sé hrósað í hástert. Ljóðin á síðunni voru tvö:Formtilraunir
A. Þríhyrningar á ferhyrningi
Fjöll
á
mynd-
flöt
á
vegg.
B. Sívalningur í hring
Hann sagði: "Gímald."
Og þögnin varð löng
sívöl og mjó
eins og kústskaft
rekið inn í ruslatunnu
sem liggur á hlið.
Svo las ég líka loksins verðlaunaljóð Óskars Árna og mér er þvert um geð að viðurkenna að ég varð fyrir vonbrigðum, enda er Óskar Árni miklu merkilegri höfundur en þetta ljóð gefur til kynna. Mér fannst það voða bítlalegt, einhvernveginn of kunnuglegt. Meira eins og auglýsinga jingle en alvöru tónsmíð. Svona eins og ég væri löngu búinn að lesa það margsinnis. En voða þægilegt og fallegt, það er ekki það, og vel gert. Ljóðlistin er bara á svo miklu blússandi svíngi að það er varla forsvaranlegt að Óskar vinni með þetta. Þó hann sé annars maklega kominn að öllum mögulegum viðurkenningum og verðlaunum.
Hér er afskaplega mikill sunnudagur í mönnum. Varla ég nenni að hella upp á og koma mér að verki, koma einhverju í verk. Í gær var góður dagur. Og þó dagurinn í dag sé ekki endilega síðri virðist hann ætla að verða rólegri. Mig langar eiginlega mest að skríða aftur upp í rúm og sofa dálítið í viðbót. Enda fór ég óþarflega snemma á fætur, í ljósi þess að ég var í þrítugsafmæli í gærkvöldi. Kannski ég sitji bara hérna og stari út í loftið stutta stund, hlusti á sunnudagsmúsík og ruggi mér. Það er margt að hugsa um.